Búseti hefur verið virkur þátttakandi í norrænu samstarfi húsnæðissamvinnufélaga og er hluti af NBO, sem stofnað var árið 1950 með það að markmiði að efla samvinnu, miðla reynslu og þekkingu og standa að sameiginlegum verkefnum og viðburðum.
Að þessu sinni var áherslan lögð á krísustjórnun og var yfirskriftin Crisis preparedness and response: The volcanic eruptions in Iceland and evacuation of the people in Grindavík. Rúmlega tuttugu fulltrúar frá Norðurlöndunum komu saman í Menningarhúsinu Kvikunni í Grindavík til að kynna sér og ræða hvernig íslensk stjórnvöld, sveitarfélög og stofnanir hafa brugðist við þeim miklu náttúruhamförum sem dunið hafa yfir á Reykjanesinu síðustu misseri.
Búseti og Félagsbústaðir stóðu sameiginlega að viðburðinum. Dagskráin hófst á fróðlegum erindum þriggja fyrirlesara sem hver um sig varpaði ljósi á ólíka en mikilvæga þætti í viðbrögðum við náttúruhamförum. Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarráðs Grindavíkur, lýsti því hvernig bærinn var áður en hörmungarnar dundu yfir, blómlegur og samheldinn og hvernig óvissan, sem skapaðist við rýminguna, hefur haft djúpstæð áhrif á samfélagið sem upplifir enn mikið óvissutímabil. Arnar Steinn Elísson, verkefnastjóri almannavarna hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, fjallaði um viðbrögð almannavarna, helstu áskoranir og boðleiðir í ferlinu. Hann sýndi jafnframt hvernig drónar hafa reynst mikilvægur þáttur í að fylgjast með hraunstraumum, taka myndir og hitagreiningar auk þess sem þeir hafa verið notaðir til að vara forvitna einstaklinga sem hafa hætt lífi sínu við að fara of nálægt eldgosinu. Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, fór yfir hlutverk stofnunarinnar, helstu verkefni hennar og hvernig reynslan af Grindavíkurrýmingunni hefur beint augum þeirra að ýmsum þáttum sem skoða þarf betur þegar kemur að náttúruhamförum og greiðslum úr sjóðnum.
Eftir fyrirlestrana var farið um Grindavík þar sem ráðstefnugestir fengu að sjá afleiðingar náttúruhamfaranna með eigin augum. Ráðstefnan hafði djúp áhrif á alla sem tóku þátt og undirstrikaði mikilvægi þess að vera vel undirbúinn, tryggja skýrt upplýsingaflæði meðan atburðirnir eiga sér stað og ekki síst að huga að andlegri heilsu íbúa eftir að hamförum lýkur.
Dagskráin hélt áfram með hringferð um Reykjanesið þar sem þátttakendur fengu innsýn í þau náttúruöfl sem hafa mótað svæðið. Ferðin endaði í Bláa Lóninu þar sem hópurinn naut slökunar og gafst tækifæri til að ræða saman í rólegri umgjörð um þau atriði sem komið höfðu fram á ráðstefnunni.
Ráðstefnugestir höfðu orð á því hversu þrautseigir Íslendingar væru og lærðu fljótt setninguna sem fleytt hefur Íslendingunum yfir margar ófarirnar „Þetta reddast!“. Að lokum voru allir sammála um að ráðstefnan hefði tekist einstaklega vel og gestirnir hefðu farið vel nestaðir af fróðleik og hugmyndum sem muni nýtast þeim í sinni vinnu.
Hér má fræðast meira um starfsemi NBO. https://www.nbo.nu