Kaup á búseturétti er valkostur fyrir þá sem vilja meira öryggi og festu en einkennir leigumarkaðinn en vilja ekki endilega kaupa fasteign. Þegar þú átt búseturétt þarftu ekki að hafa áhyggjur af ytra viðhaldi og öðru sem fylgir því að eiga og reka fasteign en þú sérð um eignina innan dyra.
Að eiga búseturétt felur í sér raunverulegt húsnæðisöryggi og langtímahugsun. Þegar búseturéttir eru auglýstir til sölu er almennt mikill áhugi fyrir þeim og ræður félagsnúmerið hver fær úthlutað (ef um er að ræða sama verðtilboð). Því lægra númer því betra og meiri líkur á að íbúðin verði þín. Því er gott að gerast félagsmaður fyrr en seinna.
Búseturéttur er þekkt form víða um heim, ekki síst á Norðurlöndunum þar sem fyrirkomulagið er útbreitt. Enda ræður búseturétthafi sínum málum að stærstum hluta sjálfur, leggur fram eigið fé en losnar undan háum kaup- og sölukostnaði, auk áhættu sem fylgir viðhaldsmálum og skuldsetningu.
Búseturéttur er fyrir alla sem vilja búa í vel byggðum húsum og njóta húsnæðisöryggis
Hvað er Búseturéttur?
Búseturéttur er millivegur milli leigu og eignar. Lagt er fram eigið fé til að kaupa búseturéttinn og svo greitt mánaðarlegt búsetugjald. Aðeins þú sem búseturéttarhafi getur ákveðið að selja búseturéttinn – því hann er óuppsegjanlegur. Ef þú ákveður að selja er búseturétturinn uppreiknaður á grundvelli vísitölu neysluverðs.
Hvað er innifalið í mánaðarlegu búsetugjaldi?
Fjármagnskostnaður íbúðar, skyldutryggingar, fasteignagjöld, hússjóður, þjónustugjald og framlag í viðhaldssjóði. Þegar horft er til alls sem er innifalið í mánaðargjaldinu sést að um hagkvæman kost er að ræða.
Það er ekki flókið að kaupa búseturétt
Reglugerð um ráðstöfun séreignarsparnaðar
Nýbyggingar og búseturéttur.
Rétthafa séreignarsparnaðar er heimilt að nýta iðgjöld af launagreiðslum til kaupa á íbúðarhúsnæði eða nýbyggingar, sbr. 2. mgr. 1. gr. Heimildin tekur ekki til kaupa á lóð, búseturétti, viðbyggingar við húsnæði eða til endurbóta á húsnæði.
Rétthafi sem hefur nýtt sér úrræði í ákvæðum til bráðabirgða XVI og XVII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, um ráðstöfun á séreignarsparnaði til kaupa á búseturétti er heimilt að nýta sér fyrirkomulag 2. og 3. gr., að uppfylltum skilyrðum laga nr. 111/2016, og skal tímabil þeirrar ráðstöfunar koma til frádráttar á tíu ára tímabilinu. Eftirstandandi ráðstöfunartímabil skal vera samfellt og samanlögð ráðstöfun séreignarsparnaðar getur ekki numið hærri fjárhæðum en kveðið er á um í 4. gr.