Saga Búseta

Húsnæðissamvinnufélagið Búseti var stofnað árið 1983 með norrænar fyrirmyndir að leiðarljósi. Markmið Búseta er að veita félagsmönnum aðgengi að íbúðum í vel byggðum húsum á sanngjörnu verði. Saga félagsins er farsæl og komin góð reynsla á starfsemina.

Búseti var stofnaður 1983

Húsnæðissamvinnufélagið Búseti var stofnað árið 1983 með norrænar fyrirmyndir að leiðarljósi. Fyrsta fjölbýlishúsið sem Búseti byggði stendur við Frostafold 20 í Grafarvogi, það var tekið í notkun í nóvember 1988 og hefur að geyma 46 íbúðir. Sem dæmi um önnur verkefni frá upphafsárum Búseta má nefna húsin við Suðurhvamm í Hafnarfirði, Trönuhjalla í Kópavogi og Garðhús í Reykjavík. Markmið Búseta er að veita félagsmönnum aðgengi að íbúðum í vel byggðum húsum á sanngjörnu verði. Saga félagsins er farsæl og komin góð reynsla á starfsemina. Á árunum sem Búseti var að byggjast upp voru erfiðleikar á húsnæðismarkaði og efnahagsástand ótryggt, það stuðlaði á vissan hátt að stofnun félagsins. Húsnæðislán einstaklinga hækkuðu en eignarhlutur þess sem skuldaði minnkaði og á þessum tíma dró úr kaupmætti launa. Viðbrögð fólks sem lenti í þessum hremmingum voru m.a. þau að stofna baráttuhóp eftir fjöldafund á samkomustaðnum Sigtúni. Sigtúnshópurinn var grasrótarsamtök sem lét sig varða þá neyð sem blasti við flestum þeim sem voru að byggja eða kaupa húsnæði.

Frumkvöðlar við stofnun Búseta

Upp úr þessu félagslega ástandi hófst áhuginn á stofnun Búseta. Búseti á rætur að rekja til þeirra sem voru í forsvari fyrir Leigjendasamtökin sem stofnuð voru 1978. Það eru einstaklingar sem áttu það sameiginlegt að hafa búið í Svíþjóð og höfðu kynnst sænska húsnæðiskerfinu og samtökum leigjenda. Eitt þeirra forma sem þessir einstaklingar höfðu kynnst var húsnæðissamvinnufélög sem var komin reynsla á í Svíþjóð. Þetta form töldu þeir sem stóðu að Leigjendasamtökunum að gæti hentað hér á landi. Þegar Jón Rúnar Sveinsson, fyrsti formaður Búseta, kynnti þessar hugmyndir með blaðagrein vorið 1983 hófst þróun sem leiddi til stofnunar Búseta. Hópurinn sem kom að því frumkvöðlastarfi sem fór þá af stað voru meðal annarra fyrrum námsmenn í Lundi, auk Jóns Rúnars, þeir Páll Gunnlaugsson arkitekt og Guðni A. Jóhannesson sem var kjörinn fyrsti formaður landssambands Búsetufélaganna. Birna Þórðardóttir, Jón Ásgeir Sigurðsson, Ingi Valur Jóhannsson og Jón frá Pálmholti voru einnig mikilvirk í undirbúningsstarfinu ásamt Reyni Ingibjartssyni sem varð fyrsti framkvæmdastjóri Búseta.

Húsnæðisöryggi og uppbygging

Á þeim áratugum sem liðnir eru frá því Búseti var stofnaður hefur sannast að samvinnuformið er góður kostur fyrir þá sem það kjósa. Á Norðurlöndum er þetta form ekki flokkað sem félagslegt, í íslenskum skilningi þess orðs, heldur sem valkvætt og opið öllum. Á hinum Norðurlöndunum leggja menn víðari skiling í hugtakið - að það sé húsnæðiskerfi sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða. Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging á vegum Búseta, meðal annars með byggingu 204 íbúða við Einholt og Þverholt. Þetta verkefni er í daglegu tali kallað Smiðjuholtsverkefnið. Það markaði tímamót í sögu félagsins byggt á þeim áherslum sem þar er að finna, með tilliti til hönnunar og viðmiða sem byggja á Nordic Built sáttmálanum. Í dag býður Búseti upp á um 1.300 íbúðir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu. Frá því að Búseti var stofnaður hefur fjöldi félagsmanna farið stigvaxandi og er fjöldi félagsmanna nú ríflega 5.000. Húsnæðissamvinnufélög bjóða lausn á íbúðamarkaði sem má kalla þriðju leiðina og er á milli þess að eiga og leigja húsnæði. Eign búseturéttar felur í sér mikið öryggi enda getur enginn sagt upp því fyrirkomulegi nema íbúinn sem er eigandi búseturéttarins. Sérstök lög gilda um húsnæðissamvinnufélög, þau hafa tekið breytingum á liðnum árum og voru nýlega uppfærð með það að markmiði að treysta enn betur hag búseturétthafa og félagsmanna.

Búseti í dag

Eftir sem áður er unnið ötullega að stefnu og markmiðum félagsins. Þannig er fjárfest með hagsmuni og framtíð félagsmanna að leiðarljósi um leið og félagsmönnum er boðið upp á öruggt húsnæði á hagstæðu verði. Búseti leggur mikla áherslu á að félagið njóti samlegðaráhrifa við byggingu og rekstur fasteigna sinna á sjálfbæran hátt. Eins og meðal annarra félaga er mannauður Búseta mikilvægasta auðlindin. Stjórn og framkvæmdastjóri Búseta leggja áherslu á góða stjórnarhætti. Búseti hefur í gegnum árin verið virkur þátttakandi í norrænu samstarfi og er aðili að NBO sem eru regnhlífarsamtök norrænna húsnæðisfélaga sem eiga íbúðarhúsnæði sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða. Búseti er einnig aðili að Grænni byggð sem er vettvangur um vistvæna þróun byggðar. Félagið keypti og standsetti húsnæði fyrir starfsemi sína að Síðumúla 10 árið 2012. Núverandi stjórnarformaður Búseta er Jón Ögmundsson en hann tók við formennsku af Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni árið 2014. Bjarni Þór Þórólfsson tók við sem framkvæmdastjóri félagsins árið 2017 þegar Gísli Örn Bjarnhéðinsson lét af störfum.

Heimildir: Áður útgefið efni Búseta.