Fjölsóttur aðalfundur Búseta

Vel sóttur aðalfundur Búseta var haldinn á Grand Hótel 28. maí. Sjö buðu sig fram til setu í aðalstjórn félagsins og fóru því fram kosningar á fundinum.

Aðalfundur Búseta var haldinn 28. maí sl. á Grand Hótel. Fundurinn var haldinn eftir uppfært viðmið stjórnvalda um samkomubann. Fundurinn var sérstaklega vel sóttur og sátu tæplega 130 manns fundinn. Fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf, farið var yfir ársreikning félagsins og nýbyggingarverkefni voru kynnt.

Jón Ögmundsson stjórnarformaður var í framboði til endurkjörs og var endurkjörinn, enda engin mótframboð. Stjórnarmennirnir Jón Hreinsson og Finnur Sigurðsson voru í framboði til endurkjörs. Ásamt þeim voru eftirtaldir í framboði til setu sem meðstjórnendur í stjórn Búseta. Christine Einarsson, Einar Kristinn Jónsson, Hildur Mósesdóttir, Ragnar Sær Ragnarsson og Valur Þórarinsson. Eftir kosningar sem fram fóru á fundinum var niðurstaðan sú að Finnur Sigurðsson var endurkjörinn og Valur Þórarinsson kom nýr inn í stjórn félagsins. Hann kemur í stað Jóns Hreinssonar sem var þakkað fyrir góð störf í þágu Búseta á liðnum árum.

Jón Ögmundsson flutti ávarp stjórnar og fór yfir þróun félagsins. Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri kynnti ársuppgjör Búseta og flutti erindi með viðbótarupplýsingum um fjárhag og stöðu félagsins. Ágústa Guðmundsdóttir markaðsstjóri hélt erindi um nýbyggingarverkefni Búseta við Árskóga í Mjódd og Tangabryggju í Bryggjuhverfi Reykjavíkur ásamt því að varpa ljósi á helstu staðreyndir um félagið.

Fundargerð aðalfundar Búseta hsf 2020

Ársskýrsla Búseta 2019 - 2020