Búseti leggur sig fram um að bjóða félagsmönnum upp á íbúðir sem mæta ólíkum þörfum fólks, efnum og aðstæðum. Þannig tekur Búseti utan um stóran hóp fólks í samfélaginu. Í íbúðum félagsins búa hátt í 4.000 einstaklingar á breiðu aldursbili og velur fjölbreyttur hópur einstaklinga og fjölskyldna í samfélaginu þetta búsetuform. Búseti hefur lagt sig fram um að svara ákallinu eftir fleiri vönduðum íbúðum á grundvelli húsnæðissamvinnufélagsforms. Félagið hefur u.þ.b. tvöldast að stærð á síðustu átta árum og hefur bætt við í fasteignaflóru sína mörgum afar hagfelldum kostum fyrir félagsmenn.
Nýlega festi Búseti kaup á litlu fjölbýlishúsi við Stefnisvog 28 í Reykjavík. Í fjölbýlishúsinu eru átján íbúðir. Þrettán íbúðir eru í eigu Búseta og fimm íbúðir eru í eigu Brynju, leigufélags Öryrkjabandalagsins. Auglýsingar á íbúðunum hafa vakið athygli og hefur félagið fengið fyrirspurnir tengt þeim. Einkum hefur hátt mánaðargjald tveggja íbúða vakið athygli. Við kaupin á íbúðunum að Stefnisvogi 28 gerði Búseti sér grein fyrir að þessar stærstu og dýrustu íbúðir í húsinu næðu ekki til stórs markhóps og gæti tekið tíma að selja. Þær eru áþreyfanlega dýrari en aðrar íbúðir í fjölbýlishúsinu og hefur það m.ö.o. vakið athygli. En deiliskipulag og hönnun er nokkuð sem Búseti gat ekki breytt enda húsið fullbyggt þegar Búseta bauðst að kaupa íbúðirnar. Eftir ítarlega greiningu taldi Búseti þó hag félagsins betur komið með kaupunum þar sem flestar íbúðirnar eru af því tagi sem mikil eftirspurn er eftir meðal félagsmanna.
Í þessu samhengi barst félaginu fyrirspurn. Spurt var, hvert hefur hugsjónin farið? Svarið er að hugsjónin er sannarlega til staðar og lifir raunar afar góðu lífi. Það er þó kúnst að halda hugsjóninni á lofti í breyttum veruleika á Íslandi. Veruleika sem einkennist af lóðaskorti og stökkbreyttum forsendum hvar sem niður ber í kostnaðarliðum þegar kemur að húsbyggingum. Starfsfólk Búseta er því í ljósi alls stolt af að geta boðið upp á kosti eins og þá sem finnast í auglýsingum Búseta í hverjum mánuði. Þar er iðulega um spennandi og hagfellda kosti að ræða í fallegum og vel byggðum húsum. Þess vegna er, eins og gefur að skilja, eftirspurnin meiri en Búseti getur annað. Því getur reynst snúið að komast í draumaíbúðina og þarf stundum að sækja um nokkrum sinnum áður en allt gengur upp. Almennt sækja tugir einstaklinga um hvern búseturétt sem auglýstur er. Ungt fólk sem er að hefja lífið er t.d. ákaflega þakklátt fyrir að geta keypt búseturétt fyrir átta til tíu milljónir kr. í stað þess að freista þess að kaupa íbúð á markaði fyrir 65-70 milljónir kr. Þegar það selur aftur þarf ekki að greiða fasteignasala milljónir í sölulaun heldur er greidd sanngjörn þóknun til skrifstofu Búseta fyrir að annast söluferlið. Þá má nefna að íbúar Búseta lenda ekki í óvæntu og dýru utanhússviðhaldi því Búseti annast allt ytra viðhald. Mánaðarlega búsetugjaldið felur (almennt) í sér allan kostnað fyrir utan rafmagn. Svona mætti áfram telja upp kostina við að vera í Búseta og hvernig félagsmenn njóta góðs af því að hugsjóninni er haldið hátt á lofti í umhverfi sem er fullt af áskorunum.
Búseti fékk einnig fyrirspurn um hvers vegna félagið byggir ekki fjölbýli sem eru viðráðanleg fyrir þá sem hafa ekki háar tekjur.
Á síðustu árum hefur Búseti lagt sig fram um að fjölga íbúðum í fasteignasafni félagsins á eins hagfelldum forsendum og mögulegt er. Þetta hefur félagið gert með góðum árangri. En félagið getur ekki snúið við þróuninni hvað varðar kostnað við að byggja og reka húsnæði. Félög eins og Búseti bera ekki ábyrgð á þeirri umbreytingu sem hefur átt sér stað hvað varðar verðmyndun á fasteignum og kostnaði við rekstur. Ofureftirspurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu (sem er starfssvæði Búseta) er staðreynd. Þessi mikla eftirspurn þrýstir verði á fasteignum upp. Margt spilar inn í og ýtir undir aukna eftirspurn. Til dæmis mannfjöldaþróun, breytt aldurssamsetning og breytt fjölskyldumynstur og ekki síst lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélög (sum hver) mættu vera duglegri að útvega óhagnaðardrifnum félögum eins og Búseta byggingarhæfar lóðir á hagfelldu verði. Því miður er það ekki svo að Búseti njóti slíkra lóðaúthlutana í miklum mæli og nýtur heldur ekki niðurgreiddrar fjármögnunar eða annarra framlaga.
Eins og flestum er kunnugt kostar ekki lítið að byggja nýjar íbúðir nú til dags. Allir kostnaðarliðir hafa hækkað á síðustu árum og fjármagnskostnaður auk þess hár ásamt öllum gjöldum, svo sem fasteignagjöldum. Þetta hefur, eins og gefur að skilja, áhrif á mánaðarlega búsetugjaldið. Verð á búseturéttum og mánaðarlegt búsetugjald endurspeglar raunverulegan kostnað. Að því sögðu er mikilvægt að hafa í huga að rekstur Búseta snýst um samlegð í rekstri og njóta íbúar þess ávinnings sem til verður byggt á stærðarhagkvæmni og rekstrarformi félagsins.
Í mánaðarlegum auglýsingum Búseta um lausar íbúðir eru auglýstir áhugaverðir og hagkvæmir kostir. Algengt er að búseturéttir séu auglýstir til sölu á milli átta og tólf milljónir kr. Mánaðarlegt búsetugjald þessara íbúða verður einnig að teljast afar sanngjarnt eins og dæmin sanna. Þær örfáu íbúðir við Stefnisvog, sem hafa vakið athygli fyrir hátt mánaðargjald, eru m.ö.o. undantekning og alls ekki lýsandi fyrir þær íbúðir sem Búseti almennt býður upp á.