Frekari uppbygging fyrir félagsmenn Búseta

Alls 20 íbúðir við Maríugötu í byggingu og styttist í framkvæmdir við Hallgerðargötu og Eirhöfða

Föstudaginn 6. maí sl. skrifuðu Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, undir viljayfirlýsingu um enn frekari uppbyggingu húsnæðis fyrir félagsmenn Búseta. Búseti hefur á síðustu árum byggt af miklum krafti og telur heildareignasafn félagsins nú um 1.200 íbúðir.

Borgarráð samþykkti nýlega lóðarvilyrði fyrir 70 íbúðir á tveimur lóðum sem gert er ráð fyrir að verði úthlutað á árunum 2023-2024, annars vegar við Rangársel í Breiðholti og hins vegar í Gufunesi II. Til viðbótar var samþykkt viljayfirlýsing um allt að 265 íbúðir á fjórum lóðum sem gert er ráð fyrir að verði úthlutað á árunum 2025-2028. Meðal annars er um að ræða lóðir á svokölluðum Korpureit og í Bryggjuhverfi III.

Nú stendur yfir á vegum Búseta bygging 20 íbúða að Maríugötu í Urriðaholti í Garðabæ og styttist í að framkvæmdir hefjist á nýbyggingum félagsins í Reykjavík við Hallgerðargötu og Eirhöfða.

Á fyrrgreindum viðburði föstudaginn 6. maí skrifaði borgarstjóri undir lóðavilyrði fyrir um 2.000 íbúðir við samtals fimm óhagnaðardrifin íbúðafélög. Þau sem undirrituðu og eru á meðfylgjandi mynd eru: Böðvar Jónsson framkvæmdastjóri Byggingarfélags námsmanna, Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Árni Stefán Jónsson stjórnarformaður Bjargs, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastýra Félagsstofnunar Stúdenta og Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta.

Undirritun viljayfirlýsingar