Fullt út úr dyrum í afmælis- og útgáfuhófi Búseta

Búseti hélt upp á 40 farsæl ár á Grand Hótel

Fullt var út úr dyrum í afmælis- og útgáfuhófi Búseta sem var haldið á Grand Hótel fimmtudaginn 23. nóvember sl. Vel á annað hundrað manns mættu til veislunnar til að gleðjast, hlýða á erindi og njóta góðra veitinga. Í ár fagnar Búseti stórafmæli, en húsnæðissamvinnufélagið var stofnað árið 1983, með norrænar fyrirmyndir að leiðarljósi og fagnar því 40 ára afmæli í ár. Saga félagsins er farsæl og komin góð góð reynsla á rekstrarformið.

Jón Ögmundsson stjórnarformaður félagsins setti viðburðinn og bauð gesti velkomna. Að því búnu tók Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta við og kynnti dagskrá viðburðarins um leið og hann varpaði ljósi á Búseta í nútíð m.a. með myndskeiði sem er upplýsandi um starfsemi Búseta í dag og sýnir nútímalegar áherslur í rekstri félagsins. Þá kynnti hann einnig aðalræðumann dagsins, Pál Gunnlaugsson arkitekt, sem fylgdi úr hlaði nýútkominni bók um Búseta. Páll hefur síðustu misserin skráð sögu félagsins í myndarlegt rit sem rammar inn helstu vörður í áhugaverðri sögu félagsins. Páll Gunnlaugsson, er mörgum að góðu kunnur, en hann stundaði nám í arkitektúr í Lundi í Svíþjóð á áttunda áratugnum og hefur síðustu áratugina rekið ASK arkitekta ásamt öðrum. Hann gekk til liðs við Búseta á upphafsdögunum, átti sæti í fyrstu stjórn félagsins og var formaður stjórnar 1988 til 1994. Síðar kom hann að nýju í stjórn félagsins og var formaður aftur 2002 til 2005. Við gerð bókarinnar og skrásetningu sögunnar spiluðu einnig stórt hlutverk, rétt eins og við stofnun Búseta, þau Reynir Ingibjartsson og Ásdís Ingólfsdóttir.

Björn Thoroddsen lék á gítar veislugestum til ánægju og myndaðist mjög góð stemmning í hófinu, sem eins og áður segir, var afar vel sótt.