Höfuðstöðvar Búseta stækka og breytast

Framkvæmdir að hefjast sem hafa að markmiði að þjóna enn betur hagsmunum félagsmanna og búseturéttarhafa

Framkvæmdir eru að hefjast á vegum Búseta sem hafa það að markmiði að þjóna enn betur hagsmunum félagsmanna og búseturéttarhafa. Framkvæmdirnar fela í sér að byggð verður þriðja hæðin ofan á höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 10. Þannig verður húsið stækkað um u.þ.b. 300 m2 um leið og önnur hæð hússins verður endurgerð. Áætlað er að framkvæmdirnar standi í sex mánuði.

Markmiðið með þessum breytingum er að mynda enn betri umgjörð og nútímaaðstæður fyrir starfsemi félagsins. Þannig verður til enn betra starfsumhverfi fyrir starfsfólk um leið og höfuðstöðvarnar verða einskonar miðstöð fyrir félagsmenn og búseturéttarhafa. Því við framkvæmdina verður til aðstaða á þriðju hæðinni sem nýtist félagsmönnum og búseturéttarhöfum í margvíslegu samhengi, m.a. til funda, fræðslu og annarra viðburða. Félagið mun þannig geta staðið fyrir viðburðum, kynningarfundum og aðalfundum í sal sem verður að finna á efstu hæð hússins. Önnur hæðin, sem nú hýsir vinnustöðvar og fundarsal, hefur verið endurskipulögð þannig að hún þjóni starfseminni betur. En fullþröngt er um starfsmenn í núverandi skipulagi og felur framkvæmdin í sér miklar framfarir hvað varðar vinnuaðstöðu. Meðfylgjandi myndir gefa vísbendingu um hvernig höfuðstöðvar félagsins munu líta út eftir framkvæmdina. Síðasta myndin var tekin við undirritun verksamnings við verktakann Flotgólf sem annast framkvæmdina.