Tilkynning frá Leigufélagi Búseta

Á næstu misserum munu eiga sér stað breytingar á starfsháttum Leigufélags Búseta. Leigufélagið er dótturfélag Búseta húsnæðissamvinnufélags og er með í útleigu 219 íbúðir á höfuðborgasvæðinu.

Á næstu misserum munu eiga sér stað breytingar á starfsháttum Leigufélags Búseta. Leigufélagið er dótturfélag Búseta húsnæðissamvinnufélags og er með í útleigu 219 íbúðir á höfuðborgasvæðinu. Ætlunin er að efla félagið og er nú í smíðum sérstök vefsíða fyrir það . Um áramótin mun félagið hætta að taka við nýjum einstaklingum á biðlista. Biðlistinn er langur og þegar loks kemur að umsækjendum er oft orðið það langt um liðið frá því sótt var um að jafnvel er komin þörf fyrir annars konar búsetuform en sótt var um. Þeir sem eru nú þegar á biðlista munu ganga fyrir þar til listinn er tæmdur.

Ný viðmið félagsins um úthlutun gera ráð fyrir að lausar leiguíbúðir verði auglýstar í sjö daga og á þeim tíma verði hægt að sækja um. Ef um er að ræða fleiri en einn umsækjanda verður dregið og myndaður listi með umsækjendum með aðstoð tölvukerfis. Fyrsta aðila á þeim lista verður boðin eignin að því gefnu að viðkomandi standist skilyrði félagsins. Félagsmenn í Búseta munu ganga fyrir og þeir sem eru nú þegar á biðlista. Markmiðið með breytingunum er að stuðla að aukinni skilvirkni, hagkvæmni og gagnsæi. Skilgreint hlutverk leigufélagsins er að bjóða upp á íbúðir til tryggrar leigu með áherslu á langtímahugsun og húsnæðisöryggi.