Vel lukkaður aðalfundur Búseta var haldinn á Grand Hótel

Auk hefðbundinnar dagskrár fóru fram kynningar á framkvæmdum félagsins.

Aðalfundur Búseta var haldinn miðvikudaginn 15. maí sl. á Grand Hótel í Reykjavík. Fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf, farið var yfir ársreikning félagsins og fram fóru kynningar á nýbyggingarverkefni og endurgerð höfuðstöðva Búseta.

Jón Ögmundsson stjórnarformaður var endurkjörinn ásamt stjórnarmönnunum Finni Sigurðssyni og Vali Þórarinssyni. Varastjórnarmaðurinn Hildur Mósesdóttir var jafnframt endurkjörinn. Þá var Hólmgrímur Bjarnason endurkjörinn endurskoðandi Búseta.

Jón Ögmundsson flutti ávarp stjórnar og fór yfir þróun félagsins. Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta kynnti ársuppgjör Búseta og flutti erindi með viðbótarupplýsingum um fjárhag og stöðu félagsins. Hólmgrímur Bjarnason hjá Deloitte, endurskoðandi Búseta, flutti stutt erindi um uppgjör félagsins og varpaði ljósi á styrk þess.

Fluttar voru kynningar á framkvæmdum á vegum Búseta. Sigurlaug Sigurjónsdóttir arkitekt hjá ASK-arkitektum kynnti nýframkvæmd félagsins við Eirhöfða í Reykjavík. Alexander Helgason verkefnastjóri hjá Búseta flutti kynningu um framkvæmdir sem eru hafnar sem hafa það að markmiði að þjóna enn betur hagsmunum félagsmanna og búseturéttarhafa. Framkvæmdirnar fela í sér að byggð verður þriðja hæðin ofan á höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 10. Þannig verður húsið stækkað um u.þ.b. 300 m2 um leið og önnur hæð hússins verður endurgerð. Markmiðið með þessum breytingum er að mynda enn betri umgjörð og nútímaaðstæður fyrir starfsemi félagsins. Þannig verður til enn betra starfsumhverfi fyrir starfsfólk um leið og höfuðstöðvarnar verða einskonar miðstöð fyrir félagsmenn og búseturéttarhafa. Því við framkvæmdina verður til aðstaða á þriðju hæðinni sem nýtist félagsmönnum og búseturéttarhöfum í margvíslegu samhengi, m.a. til funda, fræðslu og annarra viðburða.

Skoða árs- og sjálfbærnisskýrslu 2023

Fundargerð aðalfundar 15. maí 2024