Vel mætt á aðalfund Búseta

Félagið stendur á traustum fótum og fjárhagsstaða hefur styrkts

Aðalfundur Búseta var haldinn 18. maí sl. á Grand Hótel. Fundurinn var vel sóttur og sátu yfir 60 manns fundinn. Fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf, farið var yfir ársreikning félagsins og nýbyggingarverkefni voru kynnt. Jón Ögmundsson stjórnarformaður var í framboði til endurkjörs og var endurkjörinn. Stjórnarmennirnir Finnur Sigurðsson og Valur Þórarinsson voru í framboði til endurkjörs. Auk þeirra bauð Kristín Edda Gylfadóttir búseturéttarhafi sig fram til stjórnarsetu. Eftir kosningar sem fram fóru á fundinum varð niðurstaðan sú að Finnur og Valur voru endurkjörnir. Jafnframt var Hildur Mósesdóttir varastjórnarmaður í framboði til endurkjörs og var endurkjörin. Þá var Hólmgrímur Bjarnason endurkjörinn endurskoðandi Búseta.

Jón Ögmundsson flutti ávarp stjórnar og fór yfir þróun félagsins. Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri kynnti ársuppgjör Búseta og flutti erindi með viðbótarupplýsingum um fjárhag og stöðu félagsins. Ragnar O. Rafnsson sviðsstjóri ráðgjafarsviðs Ernst og Young (EY) flutti erindi um úttekt á fjárhag, starfsemi og skuldbindingum Búseta. Úttektin var unnin af EY í samræmi við lög um húsnæðissamvinnufélög. Úttektir sem þessar eru ítarlegar og snúa m.a. að því að varpa ljósi á að félagið sé sjálfbært til lengri tíma. Einnig felur slík úttekt í sér skoðun á útgreiðslum félagsins. Þannig er gengið úr skugga um að hjá félaginu sé ekki um að ræða útgreiðslu arðs né hvers konar ígildi arðs. Helstu niðurstöður eru þær að félagið viðhefur heilbrigða stjórnarhætti og stendur á traustum fótum um leið og fjárhagsstaða þess hefur styrkst á síðustu árum.

Fluttar voru kynningar á nýbyggingaframkvæmdum Búseta. Svava Bragadóttir arkitekt hjá ARKÍS kynnti nýframkvæmd við Maríugötu 7 í Garðabæ. Bæring Bjarnar Jónsson arkitekt hjá Glámu Kím flutti kynningu á nýframkvæmd við Hallgerðargötu 20. Páll Gunnlaugsson arkitekt hjá ASK arkitektum sagði frá nýframkvæmd við Eirhöfða 2. Páll, sem er einn af hvatamönnum að stofnun Búseta fyrir nærri 40 árum, flutti einnig erindi til að varpa ljósi á sögu Búseta. Það var gert í tilefni af því að á næsta ári heldur Búseti upp á fertugsafmæli. Ætlunin er að gera afmælinu góð skil og er Páll þátttakandi í afmælisnefndinni.

Hlekkur á Árs- og sjálfbærnivef 2021

Hlekkur á prentuðu útgáfu Ársskýrslu 2021

Hlekkkur á fundargerð aðalfundar 2022

adalfundur_erindi_framkv.stj._klippt

Bjarni Þór Þórólfsson kynnti ársuppgjör Búseta. Sitjandi eru frá vinstri, Hildur Mósesdóttir varamaður í stjórn Búseta, sem var fundarstjóri, Jón Ögmundsson stjórnarformaður og Helga Egla Björnsdóttir stjórnarmaður, sem gengdi stöðu fundarritara

adalfundur22_salur

Vel yfir 60 manns sóttu aðalfund Búseta

adalfundur_erindi_arkis

Svava Bragadóttir frá ARKÍS kynnti nýframkvæmd Búseta við Maríugötu 7 í Urriðaholti, Garðabæ