Umhverfisstefna

Búseta er umhugað að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum en Græn Búseta er hugtak sem félagið notar yfir vistvænar áherslur í rekstri sínum. Þær áherslur teygja sig víða þegar kemur að starfseminni.

Við höfum valið heimsmarkmiðin Aukinn Jöfnuður – Sjálfbærar borgir og samfélög – Heilsa og Vellíðan – Ábyrg neysla – Sjálfbær orka og samræmt þau við stefnu okkar í umhverfismálum.

Með umhverfisáherslum Búseta stuðlum við að því að íbúar búi í heilnæmu húsnæði en það er beinn ávinningur félagsins að tryggja góð umhverfisgæði og vellíðan íbúa. Í allri starfsemi Búseta er horft til frambúðar. Slík langtímahugsun er ekki gerleg án ríkulegrar umhverfisvitundar.

Vatns-, orku- og endurvinnslustefna

Búseti leggur sig fram við að flokka allan úrgang á skrifstofum sínum og stefnir á enn hærra flokkunarhlutfall með hverju árinu. Unnið er með vistvænan pappír og innanhúss eru ljósritunarvélar með vistvottun. Auk þess reynir félagið að tryggja góð skilyrði úrgangsflokkunar hjá öllum íbúum þess. Þá er einnig markvisst fylgst með orkunotkun og dregið úr orkunotkun með ýmsum hætti. Sama gildir um vatnsnotkun.

Meginmarkmið Búseta í umhverfismálum grundvallast á:

 • Fræða og hvetja. Félagið vill efla þekkingu og umhverfisvitund með fræðslu til íbúa, starfsfólks og verktaka um umhverfismál.
 • Sjálfbær mannvirki. Við nýframkvæmdir, endurbætur og viðhald fasteigna stuðlar félagið að umhverfisvænni byggingum. Leiðarljós okkar við hönnun og efnisval grundvallast á heilnæmi og líftímanálgun efna.
 • Vistvæn innkaup. Leitast er til þess að kaupa umhverfisvottaðar vörur og þjónustu umfram aðra á öllum sviðum starfseminnar.
 • Flokkun og endurvinnslu. Samhliða áherslum um vistvæn innkaup hefur Búseti sett sér markmið um lágmörkun úrgangs og aukið endurvinnsluhlutfall.
 • Ábyrg orkunotkun. Við viljum draga úr orkunotkun, ekki síst við notkun óendurnýjanlegra orkugjafa. Áhersla er á stafrænar lausnir, orkuskipti og gott orkueftirlit.
 • Virkir samgöngumátar. Við viljum hjóla og ganga meira og bjóðum upp á samgöngusamninga til að hvetja til þess. Auk þess er aðgengi íbúa að góðum almenningssamgöngum lykilatriði.
 • Mælanleg markmið. Innan Búseta er starfrækt umhverfisnefnd sem innleiðir markmið og mælikvarða. Árlega gefur Búseti út UFS sjálfbærnisskýrslu byggt á umhverfisstjórnunarkerfi Klappa. Við stefnum á áframhaldandi kolefnisjöfnun á starfsemi félagsins samhliða mælanlegum loftslagsmarkmiðum.

Leiðir að markmiðum:

 • Fylgjast með og skrá notkun, losun og kolefnisfótspor starfsstöðvar.
 • Koma böndum á losun á fyrri stigum og auka skráningu í umfang 3.
 • Halda áfram að fjárfesta í kolefnisbindingu á móti losun frá starfseminni.
 • Fylgjast vel með nýjum reglugerðum og stöðlum er varða umhverfismál.
 • Skipta yfir í rafmagnsbíla þegar endurnýja þarf í bílaflota.
 • Tryggja gott aðgengi að endurvinnsluílátum.
 • Auka hlutfall endurvinnslu í starfsstöð.
 • Draga úr umbúðanotkun eins og kostur er.
 • Nýta skrifstofubúnað vel og kaupa notaðan ef það býðst.
 • Huga að rafmagns- og vatnsnotkun í starfsstöð.
 • Minnka pappírsnotkun og nýta í rissblöð það sem til fellur.

Mælanlegur árangur:

Á undanförnum árum hefur Búseti náð góðum árangri í umhverfismálum eins og umhverfisstjórnunarkerfi Klappa ber vitni um. Út frá niðurstöðum ársins 2022 setjum við fram eftirfarandi mælanleg markmið:

 • Að frá árinu 2023 verði viðskiptaferðir erlendis ekki fleiri en tvær á ári og árshátíðarferðir erlendis ekki oftar en annað hvert ár
  SKÝRING: Losun í umfangi 3 jókst mikið árið 2022 vegna árshátíðarferðar starfsfólk erlendis. Árin tvö þar á undan hafði engin losun verið frá viðskiptaferðum vegna Covid og fór losun úr 0,3 í 11,3 tCO2í sem þýðir aukningu um 3667%
 • Að árið 2024 verði hlutfall endurvinnslu komið yfir 55%
  SKÝRING: Fram til ársins 2023 var úrgangur frá starfsstöð sameiginlegur með úrgangi annarrar starfsemi í húsinu. Sú starfsemi er mun úrgangsfrekari en starfsemi Búseta. Árið 2023 verður því fyrsta árið sem Búseti nær að hafa stjórn á útgangsmagni og úrgangsflokkun starfsstöðvar.
 • Að árið 2024 verði heitavatnsnotkun komin niður fyrir 1000 m³ og kaldavatnsnotkun komin niður fyrir 100 m³
  SKÝRING: Sú starfseining sem Búseti deilir húsnæði með er neyslufrek á vatn. Árið 2024 myndast svigrúm til að skipta heildarvatnsnotkun niður starfseiningarnar tvær sem gefur Búseta tækifæri til að fylgjast með vatnsnotkun í starfsstöð.
 • Að árið 2025 verði samgöngusamningar við starfsfólk orðnir tveir
  SKÝRING: Undanfarin tvö ár hefur einn starfsmaður gert samgöngusamning við starfsfólk.
  Búseti gerir samgöngusamning við starfsfólk sem ætlar að fara að lámarki 70% ferða sinna til og frá vinnu með sjálfbærum samgöngumáta. Starfsfólk er hvatt til að hjóla eða ganga til og frá vinnu. Á vinnutíma hefur fólk aðgang að rafmagnshjóli.
 • Að árið 2025 verði losun gróðurhúsalofttegunda í umfangi 2 (rafmagn og hitaveita) komin niður fyrir 0,5 tCO2í
  SKÝRING: Frá árinu 2011 hefur Búseti deilt húsnæði með starfsemi sem er háð mikilli vatnsnotkun (fiskabúð, svo fæðingarheimili). Árið 2023 var farið að huga að því að skipta notkun niður svo Búseti geti fylgst betur með notkuninni og gert áætlanir varðandi notkun.
 • Að árið 2025 hafi tCO2í í umfangi 1 og 2 lækkað um 25% frá árinu 2023
  SKÝRING: Frá 2019 hefur tCO2í lækkað jafnt og þétt, mest milli áranna 2021 og 2022 eða um 33,6%. Helgast það af minnkandi eldsneytisnotkun með fjölgun rafbíla í bílaflota Búseta. Hægt verður að draga losunarmagn enn meira saman með aðskilnaði hitaveitu við aðra starfsemi í húsinu.
 • Að árið 2026 verði allur bílafloti Búseta rafvæddur
  SKÝRING: Vinnubílar fyrirtækisins voru að helmingi rafbílar árið 2022. Þegar kemur að endurnýjun er bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti skipt út fyrir rafmagnsbíla, eins og gert hefur verið frá því fyrsti raknúni bíllinn var tekin í notkun árið 2020.
 • Að árið 2026 verði nýting endurnýjanlegrar orku komin í 100% og losun gróðurhúsalofttegunda í umfangi 1 (eldsneyti) engin
  SKÝRING: Frá árinu 2020 hefur Búseta tekist að hækka hlutfall endurnýjanlegrar orku úr 53,9% í 73,1% árið 2022. Þetta helgast af fjölgun rafbíla í bílaflota félagsins. Að sama skapi hefur notkun á jarðefnaeldsneyti lækkað úr 46,1% í 26,9% á sama tíma. Losun gróðurhúsalofttegunda í umfangi 1 minnkaði úr 17,1 tCO2í árið 2020 í 11,3 tCO2í árið 2022.
 • Að unnið verði að því koma böndum á losun á fyrri stigum (umfang 3)
  SKÝRING: Losun í umfangi 3 jókst mikið á milli áranna 2021 og 2022 sem helgast af aukningu flugferða. Stefnt er að því að koma samgöngumáta starfsmanna í umhverfisstjórnun starfseminnar og halda betur utan um losun í umfangi 3.

Staðfesting á kolefnisjöfnun

Upprunaábyrgð raforkusala

Rafræn reikningsviðskipti

Sjálfbærniuppgjör Búseta