Siðareglur birgja

Inngangur

Eins og fram kemur hér að ofan er samfélagsábyrgð ein af grunnstoðum í starfsemi og stefnu Búseta og leggur félagið metnað í að vinna að jafnvægi milli efnahags, umhverfis og samfélags með sjálfbærni að leiðarljósi. Búseti styður Global Compact alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna og tekur með virkum hætti mið af heimsmarkmiðunum um leið og félagið skuldbindur sig til að stefna og starfshætt­ir séu í samræmi við hann. Siðareglur fyrir birgja Búseta eru se­ttar í samræmi við tíu meginreglur UN Global Compact. Gerð er krafa til birgja Búseta að þeir uppfylli siðareglurnar sem lágmarksviðmið og að þeir geri sömu kröfu til sinna birgja. Tilkynna ber Búseta ef grunur vaknar um brot á reglunum. Ef eftir því er leitað þurfa birgjar að geta staðfest að þessum siðareglum sé fylgt.

Búseti hagar innkaupum sínum þannig að þau styðji stefnu félagsins um sjálfbærni.

Búseti:

 • Tryggir að þeim lögum sem félagið starfar eftir sé fylgt.
 • Stígur fram með góðu fordæmi á sviði góðra stjórnarhátta, viðskiptasiðferðis og sjálfbærni.
 • Veitir hagaðilum upplýsingar um markmið félagsins og eykur vitund birgja um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) og nýta sér þar til gerðar leiðbeiningar.

Við innkaup á vörum og þjónustu skal gæta jafnræðis, gagnsæis og að hagstæðasta tilboði sé tekið að teknu tilliti til greiningar á öllum þáttum sem stýra vali á samningaðilum. Gerðar eru kröfur um að vörur og þjónusta sem Búseti og dótturfélag kaupir uppfylli kröfur um gæði og þarfir hverju sinni. Auk þess eru gerðar ákveðnar kröfur til einstakra birgja. Við stærri innkaup leitast Búseti við að gera verðfyrirspurnir eða leitar tilboða. Við mat á hagkvæmni tilboða skal, auk fjárhagslegra þátta, þjónustuþátta og öryggisþátta, taka mið af áherslum um sjálfbærni. Búseti hvetur alla birgja og samstarfsaðila til að innleiða siðareglur í sinni starfsemi og birta upplýsingar þess efnis. Ef framkvæmd er verðkönnun fyrir kaup á vöru eða þjónustu skal þátttakendum verðkönnunar kynnt fyrirfram vægi þeirra þátta sem hafðir eru til hliðsjónar s.s. verð, gæði, þjónusta, öryggi og UFS viðmið.

Umhverfismál

 1. Kolefnisspor Birgjar eru hvattir til að mæla kolefnisspor sitt og upplýsa um þær aðferðir sem þeir hyggjast beita til minnkunar og jöfnunar á sporinu.
 2. Sorpflokkun og endurvinnsla Birgjar afhendi sorp til endurvinnslustöðva sem er flokkað eftir þeim viðmiðum og reglum sem viðeigandi endurvinnslustöðvar vinna eftir hverju sinni.

Félagslegir þættir

 1. Birgjar leggi áherslu á fylgni við lög, reglur og alþjóðlega samninga um vernd mannréttinda.
  ‒ Búseti kýs að eiga ekki viðskipti við skipulagsheildir sem stunda mannréttindabrot, s.s. þrælkun, barnavinnu, mismunun á grundvelli kyns, trúar eða kynþáttar eða brot gegn kjarasamningum. Búseti vill ekki eiga viðskipti tengd við hverskonar mútur eða spillingu.
  ‒ Búseti fer fram á að birgjar framfylgi sýn félagsins og markmiðum um leið og þær vörur sem félagið kaupir af þeim uppfylli sömu markmið.
 2. Ef lög um jafnlaunavottun eiga við um birgja er gerð krafa um að þeir uppfylli þá lagaskyldu. ‒ Eigi það ekki við, eru birgar hvattir til að setja sér jafnlaunastefnu og markmið þess efnis.
 3. Eigi lög um kynjahlutfall í stjórn við birgja er gerð krafa um að þeir uppfylli þá lagaskyldu.
 4. Búseti hvetur til þess að birgjar stefni að 40% kynjahlutfalli í stjórnendalagi.

Stjórnarhættir

 1. Birgjar eru hvattir til að setja sér siðareglur og birta þær.
 2. Birgjar eru hvattir til að setja sér sjálfbærnistefnu og birta hana.
 3. Birgjar eru hvattir til að upplýsa um ofangreind atriði og greina frá árangri í árlegri sjálfbærniskýrslu.