Nánar um viðhald og endurbætur

Almennt um viðhald búseturéttaríbúða

Eitt af markmiðum Búseta er að sinna vel viðhaldi fasteigna sinna og sýna fyrirhyggju. Þetta er m.a. gert með markvissum viðhaldsáætlunum, sem unnar eru til nokkurra ára út frá ástandi og aldri bygginga. Í stórum dráttum skiptist viðhaldsábyrgð í þrennt:

 • Búseti (móðurfélag) ber ábyrgð á ytra viðhaldi.
 • Búseturéttarhafi (íbúi) ber ábyrgð á innra viðhaldi íbúðar.
 • Búsetufélag (húsfélag) ber ábyrgð á lóð og sameign.

Ytra viðhald bygginga er á ábyrgð Búseta. Unnið er eftir viðhaldsáætlunum sem uppfærðar eru á hverju ári í samræmi við ástand og aldur bygginga.
Ytri viðhaldssjóður stendur straum af eftirfarandi meginviðhaldsþáttum:

 • Viðhald og endurnýjun á þaki
 • Viðhald og endurnýjun á ytra byrði húss
 • Viðhald og endurnýjun útihurða
 • Steypuviðgerðir
 • Endurnýjun neysluvatns-, miðstöðva- og frárennslislagna

Innra viðhald er almennt á ábyrgð búseturéttarhafa. Honum ber að ganga vel um eignina og tilkynna tryggingafélagi og skrifstofu Búseta ef bilana eða tjóns verður vart.

Meginreglan er sú að búseturéttarhafi tekur við íbúð sinni í lagi og skilar henni í lagi.

Innri viðhaldssjóður stendur straum af eftirfarandi þáttum byggt á mati Búseta:

 • Endurnýjun rafmagnstækja s.s. eldavélar, ofns, helluborðs og gufugleypis. (Ef viðgerð reynist ekki möguleg eða hagkvæm).
 • Endurnýjun glers í gluggum.
 • Vinnu vegna skoðunar og uppsetningar á blöndunartækjum og stillingar ofna.
 • Þátttöku í endurnýjun gólfefna.
 • Þátttöku í endurnýjun eldhúsinnréttinga, baðherbergja, innihurða o.þ.h. samkvæmt reglum um kostnaðarþátttöku innri viðhaldssjóðs.
 • ATH: Efnisval og val tækja er háð samþykki Búseta.

Búseturéttarhafi greiðir eftirfarandi þætti í innra viðhaldi:

 • Alla málningu innanhúss
 • Innréttingar og hreinlætistæki
 • Hurðir, húna, lamir, skrár og læsingar
 • Viðhald og bónun dúka
 • Slípun og lökkun á parketi
 • Viðhald raflagnaefnis, fyrir utan víra, öryggi og lekaliða
 • Blöndunartæki, salernissetu, klósettrúlluhaldara og snaga
 • Föst ljós í geymslu, baðherbergi og eldhúsi
 • Viðgerðir á rafmagnstækjum s.s. eldavél, bakaraofni og gufugleypi
 • Slökkvitæki, reykskynjara og dyrasíma í íbúð
 • Hitastilla á ofnum
 • Gluggajárn og stormjárn

Hér að ofan er ekki um tæmandi upptalningu að ræða.

Ef skemmdir verða á íbúð vegna utanaðkomandi leka greiðir viðhaldssjóður viðgerðina. Sama gildir um leka á baði, nema hann sé vegna vanrækslu íbúa eða leka sem tryggingarfélag bætir. Íbúi þarf þó ætíð að greiða sjálfsábyrgð tryggingatjóna, sjá um tjón og tryggingar.

Íbúar greiða mánaðarlega með búsetugjaldinu ákveðið gjald í viðhaldssjóði. Sjóðirnir eru samtryggingarsjóðir og eru ekki séreign búseturéttarhafa.

Upphæðin sem fer inn í sjóðina miðast við hlutfall af brunabótamati og viðhaldsáætlun og getur hækkað með aukinni viðhaldsþörf og aldri húsnæðis.

Greiðslur í viðhaldssjóði eru að lágmarki 0,5% af brunabótamati íbúðar. Við ákvörðun á greiðslum í viðhaldssjóð er tekið tillit til aldurs, ástands og húsgerðar.

Búseturéttarhafi getur staðið að minniháttar breytingum og eða endurbótum án sérstaks samráðs við Búseta svo fremi sem þær rýri ekki gæði íbúðar.

Allar meiriháttar breytingar á búseturéttaríbúðum eru háðar fyrirfram samþykki félagsins svo sem umskipti á gólfefnum, innréttingum o.fl. Í sumum tilfellum geta breytingar leitt til eignaraukningar en það er þó undantekning og þarf að samþykkja fyrirfram.

Búseturéttarhafar geta sótt í innri viðhaldssjóð þegar endurbætur eru fyrirhugaðar. Meginreglan er sú að ekki er greitt fyrr en að framkvæmd lokinni og skoðun hefur átt sér stað. Verk skulu unnin af viðurkenndum fagmönnum eða uppáskrifuð af þeim.

Mikilvægt er að hafa í huga að sú meginregla gildir ávallt að skila skal íbúð í sambærilegu ástandi og tekið var við henni að teknu tilliti til aldurs og eðlilegs slits.

Búseti getur aðstoðað þig við ýmislegt tengt viðhaldi á íbúð þinni. Greiða þarf gjald fyrir það sem ekki fellur undir ytri eða innri viðhaldssjóð en hér má finna verðskrá. Dæmi um slíka þjónustu er losun og hreinsun niðurfalla, stilling og lagfæring innréttinga og hurða og endurnýjun stormjárna. Sé þörf á þjónustu eða aðstoð er hægt að panta tíma hjá viðhaldsfulltrúa með því senda viðhaldsbeiðni.

Búsetufélögin bera ábyrgð á rekstri, viðhaldi og endurnýjun lóðar, bílaplans/bílageymslu og á allri sameign hússins.

Hluti mánaðarlegs búsetugjalds er húsgjald sem rennur til búsetufélagsins. Venjulega er því skipt í tvo sjóði þ.e. rekstarsjóð sem sér um dagleg útgjöld og svo framkvæmdarsjóð sem er þá söfnunarsjóður fyrir endurnýjun og viðhaldi.

 • Lóð: Til lóðar telst m.a. allur gróður, göngustígar, leiktæki, ljósastaurar, girðingar, sorptunnur og umbúnaður vegna þeirra. Aðkeypt lóðaumhirða er greidd úr rekstrarsjóði.
 • Bílaplan og bílageymsla: Merking, þrif og málun á bílastæðum er greitt úr rekstrarsjóði svo og viðhald á öllum gangstéttum. Viðhald bílageymslna eða bílastæðahúsa er greitt úr rekstrarsjóðnum svo sem hurðaopnarar og brautir, eldvarnarkerfi (sprinkler), brunahurðir, merkingar, málun og þrif.
 • Sameign: Öll sameign innandyra þ.m.t. þvottahús, hjóla- og vagnageymsla, leik- og/eða fundarherbergi, gólfefni, málning, dyrasími (móðurstöð), loftnets- og sjónvarpsbúnaður, lyfta, slökkvitæki, meindýravarnir, veggjakrot, millihurðir, skrár og hurðapumpur, útiljós og hreinsun loftræstikerfa.

Hér eru nánar upplýsingar um búsetufélög

Íbúum er skylt að tilkynna skriflega til Búseta tjón og/eða skemmdir á fasteigninni sem þeir verða varir við eða valda. Sérstaklega er mikilvægt að kalla til aðstoð ef um leka er að ræða eða annað tjón sem veldur skaða. Vanræksla íbúa getur skapað honum skaðabótaskyldu ef ekki er brugðist við.