Sala búseturéttar

Eign búseturéttar felur í sér langtímahugsun - ef þú ákveður að selja er ferlið einfalt

Aðeins þú sem búseturéttarhafi getur ákveðið að selja búseturéttinn, því hann er óuppsegjanlegur. Ef þú ákveður að selja er búseturétturinn uppreiknaður á grundvelli vísitölu neysluverðs.

Ósk um sölumeðferð ferlið

Þegar þú ákveður að selja búseturéttinn þinn þá þarftu að koma á skrifstofu félagsins og óska skriflega eftir sölu á íbúðinni. Um leið þarft þú að gefa upp ósk um afhendingardagsetningu. Einnig færðu afhentan gátlista um skil á íbúð.

Íbúðin fer þá í söluferli og auglýsingu. Ef skráðir eigendur eru tveir verða þeir báðir að árita beiðni um sölumeðferð. Þetta þarf að gera vel fyrir mánaðamót ef ætlunin er að ná inn í auglýsingu næsta mánaðar.

Í samningum um búseturéttaríbúðir er ekki eiginlegur uppsagnarfrestur. Undantekningin frá því eru samningar fyrir 1. júlí 2013, sjá hér að neðan.

Söluþóknun er skv. verðskrá hverju sinni, innifalið í henni er ein úttekt og sílenderskipti.

Bóka þarf tíma fyrir söluskoðun þar sem starfsmaður Búseta fer yfir ástand íbúðar og tekur myndir vegna verðmats.
Ef íbúð þarfnast ekki endurbóta fyrir sölu stendur íbúum til boða að fá vanan fasteignaljósmyndara til að mynda íbúðina. Fallegar ljósmyndir skipta máli fyrir auglýsingu íbúða. Kostnaður við ljósmyndun er innifalinn í söluþóknun.

Búseturéttir eru auglýstir fyrsta virka þriðjudag hvers mánaðar á vef Búseta í átta daga og næsta fimmtudag þar eftir í Morgunblaðinu. Seljandi þarf að gera ráð fyrir því að sýna íbúðina meðan umsóknarferlið er í gangi.

Mundu að þú ert besti sölumaðurinn fyrir þína íbúð. Hugaðu að því að hafa íbúðina snyrtilega og í lagi. Sama gildir um sameign og lóð sem þú og aðrir búseturéttarhafar bera ábyrgð á. Gott er að fara yfir með væntanlegum kaupendum hvort eitthvað fylgi með íbúð svo sem hillur, gardínur og skápar.

Úthlutun fer fram annan virka fimmtudag hvers mánaðar. Ef fleiri en einn félagsmaður býður hæsta verðið, upp að hámarks búseturéttargjaldi, gengur sá fyrir sem lægsta félagsnúmerið hefur. Ef ekki berst hámarkstilboð hefur seljandi rétt til að gera gagntilboð eða hafna tilboðinu. Ef engin tilboð berast á umsóknartíma þá er íbúðin auglýst áfram og gildir þá reglan fyrstur kemur fyrstur fær óháð félagsnúmeri.
Möguleiki er á framleigu íbúðar með samþykki Búseta ef heppilegt er að fresta sölu.

Búseturétturinn sem þú kaupir er þitt eigið fé og í því felst þín áhætta. Rétturinn getur hækkað upp í ákveðið hámark með vísitölu neysluverðs. Rétturinn gæti einnig lækkað ef efnhagsaðstæður eru með þeim hætti.

Sala búseturétta gengur oftast hratt fyrir sig en getur þó verið háð árstíma og efnahagsástandi.

Innan 10 virkra daga frá úthlutun hittast kaupandi og seljandi til að semja um afhendingu íbúðar. Algengt er að afhending fari fram 2-4 mánuðum eftir sölu og auglýsingu, þó aldrei seinna en eftir sex mánuði. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að kaupandi taki við eign strax.

Lokaúttekt er skil seljanda á íbúðinni til Búseta og eru allir lyklar þá afhentir úttektarmanni. Lokaúttekt fer fram a.m.k. viku fyrir afhendingardag og þarf seljandi að bóka úttekt með a.m.k. þriggja daga fyrirvara.

Seljandi og kaupandi þurfa báðir að vera viðstaddir úttekt ásamt starfsmanni Búseta. Hægt er að senda umboðsmann í úttekt og skal hann þá vera með skriflegt umboð.

Seljandi getur keypt aukaúttekt til að fá staðfest að íbúðin standist viðmið. Þannig myndast tækifæri til að bæta ástand áður en lokaúttekt fer fram. Almennt á íbúðin að vera heil og hrein og tilbúin fyrir nýjan kaupanda að flytja inn.

Ef íbúð er ekki skilað á fullnægjandi hátt þá áskilur Búseti sér rétt til að lagfæra hana og hefur til þess sjö daga eftir að íbúð er afhent. Búseturéttarhafi ber ábyrgð á búsetugjaldinu og kostnaði þeim sem hlýst af lagfæringum, s.s. vegna málunar, þrifa og skemmda.

Leiðbeiningar við skil á íbúð

Málningaleiðbeiningar

Almennt greiðir seljandi búsetugjald þar til kaupandi tekur við íbúðinni, nema ef Búseti hefur ákveðið að gera endurbætur á íbúðinni.

Búseturétturinn er yfirleitt greiddur út í tvennu lagi, 75% viku eftir að nýr íbúi flytur inn í íbúðina og lokagreiðsla þremur vikum seinna. Einungis er greitt inn á reikning búseturéttarhafans.

Við uppgjör fær búseturéttarhafi uppreiknað kaupverð búseturéttar að frádregnum kostnaði við sölu og lagfæringar ef einhverjar eru.

Ef lán hefur verið tekið, hjá viðskiptabanka Búseta til að fjármagna kaup á réttinum, er það gert upp við söluna af Búseta.

Ef búseturéttarhafi er að fara á milli íbúða þá fer uppgjör fram fjórum vikum eftir afhendingu til kaupanda.

Kaupskylda

Á félaginu hvílir kaupskylda á búseturétti sem seldur var fyrir 1. júlí 2013, sú kaupskylda er þó háð takmörkunum samkvæmt samþykktum félagsins. Uppsagnarfrestur á þessum samningum er 6 mánuðir. Ef búseturéttur selst ekki á þessum tíma þá er hann endurgreiddur skv. samþykktum félagsins, 12 mánuðum frá uppsögn. Búseturéttarhafi ber ábyrgð á greiðslu búsetugjalds út uppsagnartímann.

Takist ekki að selja búseturéttinn á uppsagnartímanum ber Búseti ábyrgð á búsetugjaldinu eftir að honum lýkur og hefur umráðarétt yfir íbúðinni. Endurgreiðsla á búseturétti getur dregist í allt að sex mánuði eftir að uppsagnarfresti lýkur. Félagið kaupir búseturéttinn á því verði sem skilgreint er nánar í samningi, ýmist lágmarksverð eða framreiknað fast verð í elstu samningunum.

Afhendingar
Gerð er sú krafa til kaupanda að hann sé tilbúinn að til að taka við íbúð innan þriggja mánaða frá auglýsingu, ef seljandi búseturéttar óskar þess. Ef kaupanda hugnast það ekki getur hann fallið frá kaupum.

Frumrit búsetusamnings
Seljandi þarf að skila frumriti samnings til skrifstofunnar eða úttektarmanns með undirskrift og setningunni "Ósk um aflýsingu" á bakhliðinni. Skrifstofan sér um að láta aflýsa samningnum hjá sýslumanni.